Leifar af níu gröfum hafa fundist í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og bendir fyrsta aldurgreining til að beinagrindurnar séu frá því fyrir árið 1104. Bæði fundust bein fullorðinna og heilar ungbarnabeinagrindur.
Að sögn Jóns Gíslasonar, bónda á Hofi í Vatnsdal, fundust beinin á föstudag þegar verið var að grafa fyrir fráveituframkvæmdum í um 20 metra fjarlægð frá íbúðarhúsinu.
Talið er að um kirkjugarð sé að ræða, en á Hofi var löngum kirkja auk þess sem nú fundust leifar af byggingu sem gæti verið kirkja. Guðný Zoëga, fornleifafræðingur og deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga, segir að þarna hafi verið grafið í kistum og væntanlega séu beinin flest grafin frá því eftir kristnitöku. Nánari aldursgreiningu þarf þó til að staðfesta að þau séu ekki enn eldri.
„Svona fundur hefur mikla þýðingu því við vitum sáralítið um fyrstu hundrað ár kristninnar,“ segir Guðný. „Útlitið á grafreitnum segir okkur mikið um skipulag, siði og venjur í frumkristni. Þessar beinagrindur eru mjög vel varðveittar og geta þannig sagt okkur mikið um líf og lífskjör fólks.“
Yfir gröfunum liggur hvít gjóska sem er fornleifafræðingum vel kunnug og er hún leifar af Heklugosi frá árinu 1104. Þannig fást efri aldursmörk á grafreitnum. Ennfremur er greinilegt, að sögn Guðnýjar, að skriða hefur fallið yfir grafirnar, og kirkjugarðurinn hafi líklega verið fluttur í kjölfarið.
Guðný segir ákvörðun um frekari rannsókn verða tekna á næstu vikum, hún sé í höndum minjavarðar í Skagafirði og Fornleifaverndar ríkisins.
Fráveituframkvæmdir á Hofi bíða þó að sinni.