Byrjað að undirbúa undirgöng í Grundarhverfi

Vesturlandsvegur á Kjalarnesi.
Vesturlandsvegur á Kjalarnesi. mbl.is/Jakob Fannar

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, segir að undirbúningur sé hafinn við gerð undirganga undir Vesturlandsveg í Grundarhverfi og framkvæmdir hefjist þegar skipulagsvinnu í samvinnu við Reykjavíkurborg ljúki, vonandi innan skamms.

Sú skipulagsvinna sé þó nauðsynleg til að tryggja að um sé að ræða varanlegar framkvæmdir sem verði unnar í samræmi við áætlanir um vegarstæði og aðrar framkvæmdir á svæðinu.  

Kristján sagði, að 1. apríl hefði hann átt fund með samtökum íbúa á Kjalarnesi þar sem hann hefði fyrst heyrt af áhyggjum þeirra vegna slysahættu á veginum, einkum vegna þess að börn þurfa að fara yfir veginn. 2. apríl hefði hann rætt við Vegagerðina um málið og tekin hefði verið ákvörðun um að hefja undirbúninginn af krafti. Á opnum fundi samgöngunefndar Alþingis 3. apríl hefði hann verið spurður um málið og upplýst að málið væri komið á fullan skrið.

Kristján sagðist hafa fullan skilning á áhyggjum íbúanna. „Þetta er óviðunandi ástand," sagði Kristján og lagði áherslu á að unnið væri af krafti að málinu. M.a. hefur verið stofnaður samráðshópur um þessi mál með aðild Reykjavíkurborgar og þar var fyrsti fundur haldinn í morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert