Gera má ráð fyrir, að engin þyrla verði tiltæk hjá Landhelgisgæslunni í 10 daga á ári og aðeins sé ein þyrla til taks í allt að einn og hálfan mánuð á ári. Björgunargeta gæslunnar skerðist í haust þegar uppsagnir tveggja flugmanna taka gildi.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Róberts Marshall, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Í svarinu kemur fram, að óhjákvæmilegt hafi verið að grípa til ráðstafana í rekstri, sem komi niður á getu Landhelgisgæslunnar að einhverju marki. Fækkað verði um eina þyrluáhöfn á árinu og útgerð varðskipa dregin saman um 36% auk fleiri aðgerða.
Í svarinu segir, að frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar vorið 2006 um eflingu þyrlusveitarinnar hafi verið leitast við að hafa fjórar þyrlur í rekstri Landhelgisgæslunnar en vegna fjárhagsstöðu, gengis krónunnar og þar sem leigumarkaður með þyrlur sé mjög erfiður hafi Landhelgisgæslan einungis á að skipa þremur þyrlum.
„Með þremur þyrlum má gera ráð fyrir að LHG hafi enga þyrlu tiltæka allt að 10 daga á ári og hafi aðeins tiltæka eina þyrlu í allt að einn og hálfan mánuð á ári en við þær aðstæður takmarkast þjónustusvæði nú við 20 sjómílur frá ströndu. Óhjákvæmilegt er að á einhverjum tímapunktum verði tvær þyrlur í viðhaldi og þá er það óvissuþáttur hve oft þriðja þyrlan bilar eða verður fyrir óhappi þegar hinar tvær eru í viðhaldi," segir m.a. í svarinu.
Þá kemur fram, að björgunargeta Landhelgisgæslunnar muni skerðast í haust þegar uppsagnir þyrluáhafnarinnar taki gildi. Þrjár þyrlur í rekstri þýði nú þegar, að nokkuð sé um að aðeins ein þyrla sé til taks. Vegna fækkunar um eina áhöfn verði aðeins ein björgunarþyrla starfhæf um það bil 25–35% hvers mánaðar að meðaltali. Börgunargeta verði þá 20 sjómílur frá ströndu.
„Það yrði mjög kostnaðarsamt að halda björgunargetunni fyllilega óskertri frá því sem stefnt hefur verið að. Áætlaður kostnaður við eina þyrluáhöfn til viðbótar er um 120 millj. kr. árlega (einkum vegna dýrra flugtíma og þjálfunarkostnaðar) en kostnaður við að leigja eina þyrlu til viðbótar liggur nálægt 700 millj. kr. á ári," segir í svarinu.