Ragna Árnadóttir hittir Evu Joly og Ólaf Þór Hauksson sérstakan saksóknara í dag til að ræða gagnrýni Evu á framgang rannsóknarinnar. Eva Joly hefur krafist þess að Valtýr Siguðrsson víki alfarið sem ríkissaksóknari en hann sér ekki ástæðu til þess. ,,Eva er dínamítkassi," segir ráðherrann.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra ætlar að ræða nauðsyn þess að veita meiri fjármunum í rannsóknina á afbrotum í aðdraganda bankahrunsins á ríkisstjórnarfundi á morgun. Þá ætlar hún að kynna drög að nýju frumvarpi um að þrír sérstakir saksóknarar verði skipaðir í bankarannsókninni í stað eins, en undirbúningur þess hófst fyrir nokkru að undirlagi Evu Joly.Ragna á fund með Evu Joly og Ólafi Þór Haukssyni sérstökum saksóknara síðar í dag. Hún hafði áður ætlað að skipa Björn Bergsson hæstaréttarlögmann ríkissaksóknara í málum sem varða bankahrunið, eftir að Valtýr Sigurðsson lýsti sjálfur yfir vanhæfi. Eva lagði hinsvegar á það þunga áherslu í gær að Valtýr Sigurðsson viki alfarið úr embætti. Hann sagðist í morgun ekki ætla að víkja. Ráðherra segist fyrst hafa heyrt af þessari afstöðu Evu í gær en ætlar að ræða við Valtý og freista þess að leysa málið. Hún segist hinsvegar ekki hafa vald til að víkja honum frá. Hún útilokar þó ekki að svo geti farið að það mætist einfaldlega stálin stinn.
Samfélagið nötraði í gær þegar Eva Joly lét stjórnvöld hafa það óþvegið meðal annars vegna fjárskorts í rannsókninni. Ragna segir að það sé hlutverk Evu að segja sína skoðun og það hafi hún gert mjög skýrt. Eva Joly sé dínamítkassi.