„Við erum alveg að nálgast hengiflugið. Við erum að nálgast bjargbrúnina hjá fyrirtækjunum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hann mælti fyrir efnahagstillögum flokksins á Alþingi í morgun.
Bjarni sagði að engan tíma mætti missa við að koma á skýrum reglum um hvernig eigi að taka á skuldavanda fyrirtækjanna og með hvaða hætti til stæði að vinna með eigendum þeirra. „Stendur til að fara í aðgerðir sem munu leiða til þess að ríkisbankarnir að meira eða minna leyti leysa til sín fyrirtækin sem eru þarna úti áður en afkskriftirnar eiga sér stað? Við skulum hafa í huga að skuldirnar á fyrirtækin í landinu, þau sem munu lifa þær hamfarir sem við erum að ganga í gegnum, þær verða afskrifaðar,“ sagði Bjarni.
Þingmenn Samfylkingarinnar lýstu mikilli ánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðist í að semja umræddar tillögur. Magnús Orri Schram Samfylkingunni lofaði frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og sagði sjálfstæðismenn hafa farið í ítarlega og góða vinnu. Mikilvæg áhersla væri lögð á víðtækt samráð. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í sama streng og þakkaði sjálfstæðismönnum fyrir tillögurnar. „Þetta er mjög jákvæð nálgun sem hér er lögð fram og ég er mjög sáttur við bæði tóninn í tillögunum og sömuleiðis í málflutningi háttvirts þingmanns. Hann er ekkert að skafa utan af stöðunni eins og hún er, en hann segir jafnframt að það þarf að skapa víðtæka sátt um margar erfiðar aðgerðir,“ sagði Össur.
Fjöldi þingmann eru á mælendaskrá við umræðurnar um þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála og má búast við að umræður á Alþingi standi fram eftir degi.