Greiðslubyrði flestra viðráðanleg

Um 77% heimila þarf að verja innan við 40% ráðstöfunartekna í greiðslubyrði íbúða-, bíla- og yfirdráttarlána. Greiðslubyrðin, miðað við tekjur og greiðslur í febrúar sl., virðist því vera viðráðanleg, þrátt fyrir að skuldsetning íslenskra heimila sé mikil í alþjóðlegum samanburði, m.v. ráðstöfunartekjur.

Eitt af hverjum sex heimilum er þó með mjög þunga greiðslubyrði og þarf að verja meira en helmingi ráðstöfunartekna í lánagreiðslur. Þetta kom fram á málstofu Seðlabanka Íslands sem bar yfirskriftina „Staða íslenskra heimila í kjölfar bankahruns.“ Mikið fjölmenni var á fundinum.

Skuldsetningin er nokkuð jafndreifð milli tekjuhópa, þannig eru þeir tekjuhæstu ekki mikið skuldsettari á en þeir tekjulægri, sem er óvenjulegt í alþjóðlegu samhengi.

Fjórðungur heimila er með húsnæðisskuldir yfir 500% af árstekjum. Einnig skuldar fjórðungur heimila meira í bílalán en sem nemur árstekjum, um 8% þegar talað er um yfirdráttarlán.

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlbankanum, kynnti niðurstöðurnar og sagði gagnagrunninn sem notast er við og telur til um 75 þúsund heimila, vera einstakan á heimsvísu. Þar inni eru dulkóðuð gögn frá bönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði, Vinnumálastofnun og ríkisskattsjóra.

2,5% með þunga greiðslubyrði og 5 milljóna neikvæða eiginfjárstöðu

Rúmur fjórðungur skuldanna fellur á heimili sem búa við mjög þunga greiðslubyrði, þ.e. þau heimili sem þurfa að verja yfir 50% af sínum ráðstöfunartekjum til niðurgreiðslu skulda.

78% hjóna með börn er með viðráðanlega greiðslubyrði. Staða einstæðra er erfiðari, en 29% þeirra eru með mjög þunga greiðslubyrði.

Þau heimili sem búa bæði við þunga greiðslubyrði og meira en fimm milljóna króna neikvæða eiginfjárstöðu (skuldir umfram eignir) eru í mestri hættu á að lenda í greiðsluerfiðleikum. Sá hópur, sem er um 2,5% heimila, dreifist nokkuð jafnt milli tekjuhópa, en hann er með um 8% af heildarskuldum.

Innan við 0,5% þeirra sem eru atvinnlausir eru í ofangreindum hópi.

Heimili í mjög neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði hafa tilhneigingu til að tilheyra tekjuhærri hópunum og um helmingur þeirra er með viðráðanlega greiðslubyrði. Á hinn bóginn hafa þau heimili sem eru með þunga greiðslubyrði lána tilhneigingu til að tilheyra tekjulægri hópunum. 68% þeirra eru enn í jákvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. Þetta endurspeglast í því að „aðeins“ 2,5% tilheyra báðum hópum. Það eru þó hátt í tvö þúsund heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka