Hætti vegna farsímasendis

mbl.is

Kennari í Klébergsskóla á Kjalarnesi taldi sig hafa orðið fyrir svo miklum líkamlegum óþægindum af völdum geislunar frá farsímasendi á þaki skólans að hann hætti störfum, tímabundið að minnsta kosti. Þetta staðfestir skólastjórinn, Björgvin Þór Þórhallsson.

Farsímasendirinn var settur upp á reykháf á þaki elstu byggingar skólans í nóvember síðastliðnum. Áður en sendirinn var settur upp kannaði skólastjórinn málið hjá menntasviði Reykjavíkurborgar og Geislavörnum ríkisins. „Á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég fékk samþykkti ég að þetta yrði sett upp.“

Í kjölfar kvartana fyrrgreinds kennara hafði skólastjórinn samband við Geislavarnir ríkisins á ný. „Upplýsingarnar sem ég fékk voru þær sömu og áður, nefnilega að geislunin frá sendunum væri langt undir viðmiðunarmörkum. Menn hefðu mælt hana á tugum staða um allt land, meðal annars við grunnskóla. Ég hef nú beðið um að geislunin frá sendinum hér verði mæld til að taka af allan vafa.“

Þorgeir Sigurðsson, fagstjóri hjá Geislavörnum ríkisins, mældi geislunina út frá sendinum á Klébergsskóla í gær. Hann segir að hún sé vel undir viðmiðunarmörkum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert