„Það þarf enginn að segja okkur hér í Vestmannaeyjum að ástandið sé ekki eins og það á að vera,“ segir Magnús Bragason lundaverkandi í Eyjum. „Þess vegna fórum við út í það sjálfir, veiðimennirnir, að draga verulega úr veiðum í fyrra.“
Magnús telur vel koma til greina að veiðimenn í Eyjum taki sig saman, sýni ábyrgð og dragi enn frekar úr veiðunum eða hætti þeim alveg um tíma. Honum hugnast ekki algert veiðibann að ofan og segist óttast að erfitt væri að fá því aflétt þegar lundinn hefði náð sér á strik. Byggir hann það á því að friðun lundans hafi verið orðið mönnum tilfinningalegt baráttumál áður en vísindalegar rannsóknir á stofninum hófust.