„Niðurstaða forsætisnefndar á fundi í dag [8. júní innsk. blm.] var að í ljósi eðlis og sjálfstæðis rannsóknarnefndarinnar sé það ekki hlutverk forsætisnefndar Alþingis að meta hæfi nefndarmanna í rannsóknarnefndinni og sendir því málið á ný til nefndarinnar.“
Svona svaraði forsætisnefnd Alþingis erindi rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið vegna kröfu Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), um að dr. Sigríður Benediktsdóttir víki úr rannsóknarnefndinni. Rannsóknarnefndin og forsætisnefndin eru ekki sammála um hvor nefndin eigi að taka ákvörðun um hvort Sigríður eigi að víkja. Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, segir stjórnsýslulög segja til um að sá sem skipi í rannsóknarnefndina, sem er Alþingi, eigi að taka ákvörðun um slíkt, en forsætisnefndin vill að rannsóknarnefndin geri það sjálf. Í byrjun mánaðarins sendi forsætisnefnd erindi þess efnis aftur til rannsóknarnefndarinnar. Boltanum hefur því verið kastað aftur til rannsóknarnefndinnar, og málið bíður umfjöllunar þar öðru sinni.
Krafa Jónasar byggist á orðum sem Sigríður lét falla í viðtali við skólablað Yale-háskólans 31. mars. Þar sagði Sigríður: „Mér finnst sem þetta [hrunið innsk. blm.] sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“
Jónas telur með þessu að Sigríður hafi gert sig vanhæfa til þess að fjalla um málefni er varðaði störf eftirlitsstofnana, þar á meðal FME.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.