Á síðasta bæjarstjórnarfundi í Snæfellsbæ tilkynnti Ásbjörn Óttarsson að hann segði sig úr bæjarstjórn vegna starfa sinna á Alþingi. Við sama tækifæri sagði Gunnar Örn Gunnarsson sig úr bæjarstjórn þar sem að hann er í vinnu í Reykjavík.
Nýr forseti bæjarstjórnar var kosinn á þessum fundi og var það Kristjana Hermannsdóttir. Er Kristjana fyrsta kona, sem kjörin er forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Í stað þeirra Ásbjörns og Gunnars koma Brynja Mjöll Ólafsdóttir Drífa Skúladóttir.
Næst þegar bæjarstjórn verður kölluð saman verður það sögulegur fundur. Fyrir það fyrsta verður það 200. fundur bæjarstjórnar en það verður einnig söguleg stund vegna þess, að bæjarstjórn verður þá að meirihluta skipuð konum.