Breska verslunarkeðjan Marks & Spencer hefur skrifað Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, bréf þar sem varað er við þeim afleiðingum, sem hvalveiðar Íslendinga kunni að hafa á viðskiptasambönd.
„Ísland er mikilvægur framleiðandi fiskafurða fyrir okkur. Við metum þær gæðakröfur, sem settar eru í sjávarútvegi ykkar og langtíma umhverfisverndarmarkmið sem ríkisstjórnir Íslands hafa haft í heiðri, þar á meðal ríkisstjórn þín. Þetta hefur leitt til þess að við höfum þróað langtíma viðskiptasambönd við fiskframleiðendur á Íslandi.
Það er vegna þessa sambands, sem við sjáum okkur knúin til að lýsa áhyggjum okkar af því að hvalveiðar verði hafnar á Íslandi að nýju. Við gerum okkur grein fyrir því, að þetta er tilfinningamál stoltrar og sjálfstæðrar þjóðar en við teljum að við myndum vanrækja skyldur okkar ef við bentum ekki á þær hættur, sem það hefur í för með sér að Ísland tengist umdeildri atvinnustarfsemi," segir m.a. í bréfinu, sem Richard Gilles, einn af framkvæmdastjórum M&S skrifar undir.
Þar kemur fram að stefna Marks & Spencer sé að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki, sem tengist atvinnuslátrun sjávarspendýra, þar á meðal hvala.
„Við virðum rétt og skyldu íslensku ríkisstjórnarinnar til að stjórna nýtingu auðlindanna á sjálfbæran og virðingarverðan hátt en treystum því að þið munið taka til greina sjónarmið lykilviðskiptavina á útflutningsmarkaði ykkar, sem eru andvígir hvalveiðum í atvinnuskyni," segir í bréfinu.