Mikil traffík í iðnaðarráðuneyti

Katrín Júlíusdóttir og Ragna Árnadóttir á Alþingi.
Katrín Júlíusdóttir og Ragna Árnadóttir á Alþingi.

„Erlend nýfjárfesting er okkur mjög mikilvæg núna og það eykur mér bjartsýni að í ráðuneytinu hefur aldrei verið jafn mikil traffík af aðilum sem horfa til okkar sem staðsetningarkosts, “ sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra við utandagskrárumræður um atvinnumál á Alþingi í morgun.  

Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokki var málshefjandi í umræðunum. Hún benti m.a. á að óvissa væri um framboð orku og umhverfismatsferlið væri óljóst. Þetta hefði leitt til þess að fjárfestar hafi horfið frá með stórverkefni.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði gríðarlega mikilvægt að framkvæmdir fari af stað við Búarhálsvirkjun. Rætt væri um aðkomu lífeyrissjóða í stöðugleikaviðræðunum í Karphúsinu 

Hún sagði að framkvæmdir væru hafnar við húsnæði undir netþjónabú Verne Holding í Reykjanesbæ. Undirritað hefði verði samkomulag við aðstandendur sólarkísilverksmiðju í Helguvík. Síðar á árinu væri að vænta ákvörðunar um hvort ráðist verður í byggingu hreinkísilverksmiðju. Í seinustu viku hafi svo fulltrúar fyrirtækisins Greenstone ásamt mjögt stórum bakhjarli skoðað Blönduós, Egilsstaði og fleiri staði í leit að mögulegri staðsetningu fyrir stórt netþjónabú. „Líklega eitt það stærsta sinnar tegundar,“ sagði Katrín.

Katrín sagði að margar góðar fréttir væru að berast í atvinnumálum. Vísbendingar væru komnar fram um að takast muni að skapa fleiri ársverk í byggingariðnaðinum en gert var ráð fyrir í atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar, sem miðað við að til yrðu 1.700 ársverk.

Katrín sagði einnig að nú störfuðu 8 frumkvöðlasetur um land allt. Þá hafa 14 sveitarfélög staðfest þátttöku í samstarfsverkefni Skógrætkarfélagi Íslands, samgönguráðuneytis og sveitarfélaga og þar væri um 312 störf að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert