Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta og lektor við Háskóla Íslands, hefur farið þess á leit við embætti sérstaks saksóknara að það rannsaki viðskipti Landsbankans og Glitnis við Árvakur hf., þá sérstaklega kaup Björgólfs Guðmundssonar og Ólafs Jóhanns Ólafssonar á hlutabréfum í Árvakri.
Viðskipti bankanna við Árvakur og fyrrverandi eigendur félagsins, sem Vilhjálmur hefur óskað eftir að verði rannsökuð, fóru fram á árunum 2006 til 2008. Nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs, og þar með mbl.is og Morgunblaðsins, nú á vormánuðum eftir að hafa átt hæsta boð í félagið þegar það var selt af Íslandsbanka. Viðskipti banka við þá tengjast beiðni Vilhjálms ekki með neinum hætti.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti í samtali við mbl.is að bréf frá Vilhjálmi hefði borist embættinu þar sem óskað væri eftir rannsókninni. Málið væri á frumstigi og til athugunar hjá embættinu.
Tveir þættir verði rannsakaðir
Vilhjálmur óskar sérstaklega eftir því að rannsóknin á bönkunum tveimur beinist að tveimur þáttum. Þetta gerir hann sem fyrrverandi hluthafi í fyrrnefndum bönkum. Orðrétt segir í bréfi Vilhjálms til saksóknarans.
„1. Lánveitingum þessara tveggja banka til Árvakurs hf., sem leiddu til tapaðra útlána fyrir þessar stofnanir að fjárhæð u.þ.b. 3-4 milljarðar. Meðal þessar útlána er lán Landsbankans án nokkurra trygginga en með fyrirhuguðum breytirétti í hlutafé án þess að það hafi verið samþykkt í stjórn Árvakurs hf. áður en lánið var veitt. Ástæða er til að athuga hvernig ferli þessarar lánveitingar var hjá lánanefnd Landsbankans, þ.e. frá umsókn til afgreiðslu með kostgæfniathugun þar á milli.
2. Að rannsakað verði hvort kaup fyrrnefndra tveggja einstaklinga í gegnum eignarhaldsfélög þeirra hafi verið fjármögnuð með lánveitingum til eignarhaldsfélaganna frá Landsbankanum þar sem Björgólfur Guðmundsson var aðalhluthafi í gegnum félag sitt, Samson Holding, og að lánveitingar vegna þessara viðskipta hafi verið án nokkurra trygginga nema hugsanlega aðeins með handveði í hlutabréfum Árvakurs hf. og að útlánin séu lánastofnunum.“
Vilhjálmur óskar eftir því að það verði athugað hvort lánveitingar Landsbankans, og eftir atvikum annarra banka, hafi verið með þeim hætti að fyrirséð hafi verið að lánveitingarnar hafi verið með svo óábyrgum hætti að andvirði lánanna myndi tapast „og því flokkist undir umboðssvik samkvæmt ákvæðum hegningarlaga eða önnur ákvæði,“ eins og orðrétt segir í bréfi Vilhjálms.
Sérstaklega er vitnað til tveggja lagaákvæða í bréfinu, sem bankar hafi mögulega hafi brotið gegn. Það eru eftirfarandi lagagreinar:
249. gr. Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.
19. gr. Góðir viðskiptahættir og venjur.
Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.