Ýmsar breytingar eru í vændum innan stjórnsýslunnar og þær breytingar má sjá í nýju þingfrumvarpi sem lagt hefur verið fram. Þar segir að endurskoða eigi skipulag ríkisrekstursins í heild sinni í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi í kjölfar bankahruns og efnahagssamdráttar.
Í samantekt frumvarpsins kemur fram að þessar stjórnkerfisumbætur snúist um tilfærslu verkefna milli ráðuneyta til að bæta og einfalda stjórnsýsluna og til að: „...bæta þjónustu við atvinnulífið og almenning, efla fagráðuneytin og gefa forsætisráðuneytinu meira svigrúm til að sinna forustu við stefnumótun og samhæfingu milli ráðuneyta..."
Ráðuneytum sem koma að stjórnun efnahagsmála fækkað
Lagt hefur verið fyrir alþingi tillaga um að stofna sérstakt efnahags- og viðskiptaráðuneyti í stað viðskiptaráðuneytisins og yfir á það ráðuneyti munu þau verkefni sem tengjast efnahagsstjórnun sem nú heyra undir forsætis- og fjármálaráðuneytið færast yfir til hins nýja efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
Þar er átt við efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins, Hagstofu Íslands, Seðlabanka íslands og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þetta mun vera liður í því að fara að ráðum finnska sérfræðingsins Kaarlo Jännäri þess efnis að nauðsynlegt sé að fækka þeim ráðuneytum sem koma að stjórnun efnahagsmála.
Fjármálaráðuneytið mun áfram sjá um hluti sem tengjast stjórn ríkisfjármála svo sem tekjuáætlun fjárlaga ofl.
Ýmis mennta- og menningarmál flytjast frá forsætisráðuneytinu yfir til mennta- og menningarmálaráðuneytis svo sem forræði menningarstofnana á borð við Gljúfrastein og Þjóðmenningarhús.
Nafnabreytingar
Þau ráðuneyti sem nafnabreytingar verða gerðar á eru:
dóms- og kirkjumálaráðuneyti sem verður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
Menntamálaráðuneytið verður mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Samgönguráðuneytið verður að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og viðskiptaráðuneytið breytist sem fyrr segir í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.