Þótt heilbrigðisyfirvöld hér á landi kunni að hækka viðbúnaðarstig vegna svínaflensu í samræmi við yfirlýsingu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að flensan teljist nú heimsfaraldur breytist ekki undirbúningsvinnan sem beinst hefur að því að búa almannavarnayfirvöld undir meiri faraldur með haustinu.
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að búist hafi verið við því um skeið að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) myndi lýsa yfir hæsta viðbúnaðarstigi og skilgreina svínaflensuna (H1N1) þar með sem heimsfaraldur. Haraldur tekur fram að þótt flensan teljist heimsfaraldur sé hún ekki skæð. Þessi yfirlýsing hefur þau áhrif að bóluefnisframleiðendur geta snúið sér að því af krafti að framleiða bóluefni gegn inflúensu af þessum stofni, að sögn Haraldar. Þörf sé á því á suðurhveli jarðar þar sem nú sé jarðvegur fyrir faraldur.
Farið verður yfir málið á fundi sóttvarnarlæknis og almannavarnaryfirvalda í fyrramálið og verður væntanlega gefin út yfirlýsing að honum loknum. Haraldur á ekki von á að breyta þurfi um áherslur hér á landi þótt það kunni að vera nauðsynlegt að breyta viðbúnaðarstiginu í samræmi við mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Áfram verði rætt við sóttvarnarlækna á landsbyggðinni, lögreglustjóra, sveitarstjórnir og aðra sem komi að almannavörnum. Vinnan snúist fyrst og fremst um undirbúning næsta vetrar þegar meiri hætta sé á að inflúensan og ef til vill skæðari tilfelli hennar breiðist út hér á landi.