„ÞEGAR tilkynningin barst frá ráðuneytinu á mánudag vorum við búin að innheimta 9 milljónir króna í oftekinn bensínsskatt af okkar viðskiptavinum,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, aðspurður hvers vegna fyrirtækið hafi aðeins greitt 9 milljónir króna til góðgerðarmála vegna oftekins bensínskatts. Kunnáttumenn sögðu að greiðslan ætti að nema um 25 milljónum.
„Við erum auðvitað einnig með tugþúsundir af reikningshafandi viðskiptavinum og þeir hafa engan reikning fengið ennþá. Við erum að vinna í því núna að bakfæra og leiðrétta það. Þess vegna var upphæðin ekki hærri – það eru svo margir sem eru með reikning hjá okkur og greiða því eftir á. Það verður lagfært. Aðeins 9 milljónir voru innheimtar á mánudaginn. Það er prinsippmál að það verði ekki ein króna af ofteknum gjöldum eftir hjá félaginu.“