Eigendur bókaverslunarinnar Mál og menning á Laugavegi 18 eiga nú í viðræðum við húseigendurna um endurnýjun á leigusamningi. Ef samningar nást ekki mun verslunin sem hefur verið starfrækt frá 1961 færast um set í lok júlí.
„Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir, við eigum í viðræðum við húseigendur þannig að ég get ekki staðfest að við séum að fara út úr húsnæðinu á Laugaveginum," sagði Ingþór Ásgeirsson framkvæmdastjóri verslana hjá Pennanum sem rekur bókabúð Máls og menningar.
Það er eignahaldsfélagið Kaupangur sem á húsnæðið sem Mál og menning er í, sömu aðilar og áttu Laugaveg 4 - 6 sem Reykjavíkurborg keypti síðast liðinn vetur.
Ingþór sagði eðlilegt að húseigendur sem hefðu keypt húsið sem fjárfestingu vildu sjá hagnað af þeirri fjárfestingu. „Við vitum hvað við getum þolað í okkar rekstri í hækkun á leigu og annað og við erum bara ekki alveg að ná saman þarna á mill en við höfum lagt fram tillögur þar sem kemur fram hversu langt við getum teygt okkur og nú er það húseigendanna að segja til um hvort þeir geti lifað af við það," sagði Ingþór í samtali við mbl.is.
Ingþór sagði að það væri leiðinlegt ef sú staða kæmi upp að þessi sögufræga bókabúð og menningarmiðstöð þyrfti að flytja „á hans vakt."