Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að núverandi fyrirkomulag um embættismenn sé óviðunandi og þurfi að endurskoða.
„Það eru ráðuneytisstjórarnir... sem ráða raunverulega ferðinni í þessu máli. Það er ekki hægt að taka á þessum málum öðru vísi en með tug milljóna króna starfslokasamningi ef ráðherra telur nauðsynlegt af einhverjum ástæðum að breyta um ráðuneytisstjóra og það er auðvitað óviðunandi," sagði Jóhanna
Hún var að svara fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni VG, sem sagði að sér þætti fyrirkomulag varðandi embættismenn vera gengið sér til húðar. Sagði hann að stöður ráðuneytisstjóra væru í sumum tilfellum hápólitískar en í öðrum á faglegum grunni. Sagðist Árni telja, að ráðuneytisstjórar eigi annað hvort að vera ráðnir á algerlega faglegum forsendum eða að þeir komi og fari með ráðherrum.
Jóhanna sagði, að skoða þurfi allar reglur um embættisveitingar í stjórnkerfinu og það ætti að auglýsa stöður og embætti í stjórnkerfinu og standa faglega að málum. Sagðist Jóhanna telja, að þessi ríkisstjórn hafi gert það.