Umferðin á Vesturlandsvegi við Kjalarnes gengur hægt þessa stundina. Þar er bíll við bíl og meðalhraðinn um 5 km á klukkustund. Meðal þeirra sem sitja fastir í umferðinni eru þingmenn sem eiga sæti í samgöngunefnd Alþingis, en þeir eiga að mæta á fund í Klébergsskóla kl. 20.
Íbúar á Kjalarnesi hófu mótmælastöðu við Vesturlandsveg klukkan 17 í dag til þess að leggja áherslu á kröfur sínar um bætt umferðaröryggi. Hefur umferðin gengið hægt í kjölfarið.
Marta Guðjónsdóttir, formaður hverfisráðs Kjalarness, er á meðal þeirra sem sitja fastir á Vesturlandsvegi, en hún var í Kollafirði þegar mbl.is ræddi við hana. „Ég vona á ég nái á fundinn, sem ég á að setja kl. átta, því ég er fundarstjóri,“ segir hún og vísar til fundarins með samgöngunefndinni.
Hún segir að ökumenn taki töfunum með ró og spekt. „Það virðist hafa skilning á þessu. Það er enginn að flauta eða neitt slíkt.“
Lögreglan er á vettvangi og fylgist með.