Vinnuslys varð í malarnámu við Þrengslaveg um kl. 10:30 í morgun þegar malarskriða féll óvænt á jarðýtu og kaffærði hana nánast. Maður var í ýtunni og þrengdi mölin svo að honum að hann átti erfitt með að anda. Að sögn lögreglunnar á Selfossi sýndu vinnufélagar mannsins snarræði og björguðu honum.
Þeir brutu rúðu á ýtunni og náðu að moka ökumanninn lausan og draga hann út. Þá gat maðurinn aftur dregið andann.
Hann var fluttur á slysadeild í Fossvogi í Reykjavík. Hann hlaut ekki alvarlega áverka. Var nokkuð lemstraður og eftir sig. Það fór því betur en á horfðist að sögn lögreglunnar.