Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ýmiskonar fjársvik, m.a. með því að nota greiðslukort annars manns, sem hann tók samtals um 270 þúsund krónur út af.
Þá var hann dæmdur til að greiða hóteli á Ísafirði 20 þúsund krónur í bætur en hann tók drykki úr míníbar hótelherbergis og hringdi þar án þess að greiða fyrir. Einnig voru þrif á herberginu á eftir kostnaðarsöm.
Loks var maðurinn fundinn sekur um að hafa framvísað greiðslukorti annars manns í spilasal í Reykjavík og tekið út af því 40 þúsund krónur.
Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir þjófnað og fíkniefnabrot.