Fasteignamat íbúða hækkar

Heildarfasteignamat íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 1,2% með nýju fasteignamati sem tekur gildi á næsta ári. Breytingin er misjöfn eftir hverfum, þannig hækkar húsnæði í Suður-Þingholtum um 31,5% en í Vallahverfinu í Hafnarfirði lækkar matið um 16,2%.

Suður-Þingholtum má gróflega lýsa sem svæðinu sunnan og suðvestan  Njarðargötu og Bergstaðastrætis, en þar er þéttleiki byggðarinnar minni en þegar ofar dregur í Skólavörðuholtið.

Fasteignaeigendur munu fá sendar tilkynningar um nýtt fasteignamat í næstu viku og hafa frest til 24.júlí nk. til að gera við það athugasemdir.

Fasteignaskrá Íslands hefur tekið upp nýjar og endurbættar aðferðir við útreikninga á fasteignamatinu til þess að fá raunhæfara mat, til að matið  endurspegli markaðsvirði eigna betur en hefur verið. Matið er unnið út frá  verðlagi í febrúar 2009, en verður um 5% lægra en niðurstaða reiknilíkansins gefur til kynna miðað við þann tíma. Við næsta mat verður könnuð verðlagsþróun frá febrúar 2009 til febrúar 2010.

Auk upplýsinga um gangverð á fasteignamarkaði, sem unnar hafa verið upp úr þinglýstum kaupsamningum síðastliðinna fimm ára, byggist breytt íbúðamat á margvíslegum upplýsingum um eiginleika og gerð hverrar eignar. Meðal ólíkra þátta sem hafa áhrif á verðmat má nefna staðsetningu, fjölda herbergja og hreinlætistækja og hvort lyfta sé í húsi.

Frá árinu 2001 hefur fasteignamatinu verið viðhaldið með framreikningi, þannig að allar eignir í tilteknum flokki í hverju sveitarfélagi hækkuðu jafn mikið. Breytingin er gerð þar sem einstakar eignir þróuðust ekki eins og framreikningar gáfu vísbendingar um og matið fylgdi því ekki breytingum á markaðsvirði.

Mat á 55% íbúða hækkar -  lækkar á 45%

Samanlagt fasteignamat íbúðarhúsnæðis á landinu hækkar um 2,5%. Á Íslandi eru 122.000 íbúðir skráðar, þar af hækkar mat á 67.000 íbúðum en á 55.000 íbúðum lækkar matið. Mest hækkar fasteignamatið á Suðurnesjum, um 13,2%, en minnst á höfuðborgarsvæðinu.

Heildarmat fasteigna á landinu öllu lækkar um 0,3% við breytinguna, Þar af lækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 6,0% og mat sumarbústaða um 5,0%. Fasteignamat jarða lækkar um 2,2%.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, sem situr í stjórn Fasteignaskrár Íslands, segir nýtt og raunhæfara fasteignamat mjög til bóta. Matið mun hafa áhrif á áætlanagerð fjárlaga sveitarfélaga fyrir næsta ár, en eftir á að koma í ljós með hvaða hætti. Fasteignagjöld er mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin, en áætlað er að þau skili sveitarfélögunum  samanlagt 41 milljarði króna á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert