Hættir sem bæjarstjóri

Jónmundur Guðmarsson.
Jónmundur Guðmarsson. mbl.is/Kristinn

Jónmundur Guðmarsson mun hætta sem bæjarstjóri Seltjarnarness þegar hann hefur formlega störf sem framkvæmdastjóri Sjálftæðisflokksins. „Það var tekin ákvörðun um það fyrr í dag hjá miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, að tillögu formannsins, að ég tæki þetta starf að mér. Sem ég fyrir mitt leyti hef samþykkt,“ segir Jónmundur í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Jónmundur ekki nákvæma tímasetningu liggja fyrir hvenær hann tekur formlega við starfinu af Grétu Ingþórsdóttur, sem tók framkvæmdastjórans tímabundið.

Jónmundur segir þetta vera spennandi tækifæri og áskorun. „Spennandi að fara í uppbyggingu og sókn fyrir flokkinn með Sjálfstæðismönnum um allt land. Og ekki síst að koma til liðs við og standa við nýjum, og að mínu mati, glæsilegum forystumanni. Formanni flokksins [Bjarna Benediktssyni].“

Aðspurður segir Jónmundur að það hafi verið leitað sín. „Ég var ekkert að velta fyrir mér öðrum hlutum en að halda áfram sem bæjarstjóri hér á Seltjarnarnesi. Þetta kom síðan upp og mér gafst gott tækifæri til þess að ígrunda þetta, vega og meta kostina, tækifærin og áskorunina. Og niðurstaðan var sú að þetta var einfaldlega tækifæri sem ég vildi ekki missa af að fá að spreyta mig á,“ segir Jónmundur.

„Ég mun að sjálfsögðu hætta sem bæjarstjóri þegar ég tek við sem framkvæmdastjóri flokksins en ég mun sitja áfram sem bæjarfulltrúi um sinn,“ segir Jónmundur. Þá hefur hann greint bæjarfulltrúum á Seltjarnarnesi frá ákvörðun sinni.

„Það er náttúrulega erfitt á vissan hátt erfitt að skilja við þetta starf sem að ég hef verið í og samstarfsmenn mína hér og bæjarbúa,“ segir Jónmundur og tekur fram að sl. sjö ár hafi verið mjög ánægjuleg og árangursrík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert