Tillögur sjálfstæðismanna um aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála hlutu góðar viðtökur þingmanna annarra flokka og tveggja ráðherra á Alþingi í gær ef marka má yfirlýsingar þeirra við fyrstu umræðu um þær. Sögðust þeir taka tillögunum fagnandi og einstakir sjálfstæðismenn hófu mál sitt á að þakka hlýhug sem fram kæmi í ummælunum.
Margir þingmenn, bæði úr stjórnarliðinu sem og stjórnarandstöðu, lýstu sérstaklega áhuga á að skoðuð verði vel tillaga Sjálfstæðisflokksins um að inngreiðslur í lífeyrissjóð verði skattlagðar í stað útgreiðslna eins og nú er. Í tillögunni um skatt á lífeyrisgreiðslur segir að sú aðgerð gæti aflað ríkissjóði allt að 40 milljarða kr. viðbótartekjum án þess að skerða ráðstöfunartekjur launþega og eftirlaunaþega.
„Þetta er mjög jákvæð nálgun sem hér er lögð fram og ég er mjög sáttur við bæði tóninn í tillögunum og sömuleiðis í málflutningi [Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins],“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra almennt um tillögur Sjálfstæðismanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagðist einnig að langmestu leyti geta tekið undir tillögurnar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.