Mikið hefur borið á óánægju meðal Ísfirðinga með það að enginn sjómaður hafi verið heiðraður á sjómannadaginn líkt og hefur verið um áratuga skeið. Mikil hefð er fyrir sjósókn hér fyrir vestan og Ísfirðingar voru einmitt fyrsti bærinn, ásamt Reykjavíkurborg, til að halda sjómannadaginn hátíðlegan árið 1938.
„Það var bara ekki
nokkur maður í holunum til þess að veita þessari viðurkenningu viðtöku,
“ segir Sævar Gestsson, formaður sjómannadeildar Verkalýðsfélags
Vestfirðinga.
„Þeir fáu sjómenn sem voru inni í myndinni höfðu
ekki áhuga fyrir því. Það er auðvitað miðað við vissan aldur, að menn
séu komnir á eftirlaun. Þeir eru nú ekki margir nú til dags.“
Um 120
sjómenn á Ísafirði eru skráðir í félagið en haft var samband við a.m.k.
tvo sem höfðu aldur til um hvort þeir væru reiðubúnir til að vera
heiðraðir um Sjómannadagshelgina, svo reyndist ekki. „Maður heyrði þá
afsökun að þeir hefðu ekki verið nóg til sjós og einnig að þeir væru
ekki nógu gamlir. Það er ekkert hægt að gera ef menn hafa ekki áhuga
fyrir þessu, það er ekki hægt að skikka neinn til þess“, segir Sævar.
Sjómannadagurinn
hefur verið haldinn á hverju ári frá árinu 1938, en að sögn Sævars
hefur komið fyrir að enginn sjómaður hafi verið heiðraður og nokkur ár
hafi dottið út. „Það eru bara orðnir svo fáir sem eru í pottinum. Það
voru mest 200-300 sjómenn skráðir í félagið þegar það var kraftur í
útgerð hérna á Ísafirði, þetta er orðið miklu minna núna“, segir Sævar.
Hann viðurkennir að þetta sé leiðinlegt ástand og skilur að
fólki þyki það miður að enginn á Ísafirði hafi verið heiðraður í ár.
„Svona er lífið í þessu, það er ekkert við þessu að gera. Þegar
sjómönnum fækkar þá eru færri menn í spilunum til að heiðra.“, segir
Sævar.