„Starfs- og stjórnarmönnum er óheimilt að þiggja boðsferðir af viðskiptavinum, innanlands sem utan, hvort sem um er að ræða skemmtiferðir, svo sem veiðiferðir og golfferðir, eða kynnisferðir vegna einstakra fyrirtækja eða viðskiptakosta,“ segir í siðareglum fyrir stjórnarmenn í lífeyrissjóðum sem samdar hafa verið á vettvangi ASÍ og kynntar voru í gær.
Tekið er fram að undanteknar séu ferðir sem talið er að hafi upplýsingagildi fyrir lífeyrissjóðinn eða gera hann hæfari til að sinna hlutverki sínu. „Í slíkum tilvikum skal metið af yfirmanni eða sjóðstjórn eftir atvikum hvort svo sé, enda greiði lífeyrissjóðurinn sjálfur kostnað við ferðina nema annað sé sérstaklega ákveðið og formleg heimild veitt til.“
Undanteknar eru jóla- og afmæliskveðjur, sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan marka sem teljast algeng í slíkum tilvikum skv. nánari reglum.
Þá er áhersla lögð á að sjóðir taki ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum og lagt er til að stofnuð verði sérstök siðanefnd lífeyrissjóðanna á vettvangi Landssambands lífeyrissjóða og jafnframt hafa verið mótaðar hugmyndir að reglum um „samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóðanna“.