Ríkissaksóknarinn hyggst ekki víkja

Valtýr Sigurðsson
Valtýr Sigurðsson

Valtýr Sigurðsson segist ekki hafa hugleitt að segja af sér embætti ríkissaksóknara. Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, sagði í Kastljósi sjónvarpsins í fyrrakvöld að það væri ekki nægilegt að Valtýr viki að hluta, hann yrði að víkja alfarið.

Valtýr ritaði Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra bréf 18. maí sl., þar sem hann segir rétt að hann víki tímabundið, til að byrja með til 1. júní 2010, í öllum málum sem heyra undir embætti sérstaks saksóknara. Þetta gerði Valtýr vegna þess að Sigurður sonur hans er annar forstjóra Exista hf. „Ríkissaksóknara er mikið í mun að hið nýstofnaða embætti sérstaks saksóknara njóti fulls trausts og að sjálfstæði þess sé hafið yfir allan vafa,“ segir Valtýr m.a. í bréfinu.

Dómsmálaráðherra brást við bréfinu með því að fela Birni Bergssyni hæstaréttarlögmanni að gegna hlutverki ríkissaksóknara í málum sem heyra undir Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara. Til þess þarf lagabreytingu. Það var niðurstaða ráðuneytisins og sérfræðinga að ríkissaksóknari gæti ekki að óbreyttum lögum vikið sæti á grundvelli vanhæfis í einum málaflokki, heldur einungis á grundvelli einstakra mála. Þá verður lagt til að tilkynningaskylda rannsóknarnefndar Alþingis fari ekki til ríkissaksóknara.

Valtýr Sigurðsson kveðst ekki sjá hvernig Eva Joly, sem ráðgjafi sérstaks saksóknara, tengist málum hans embættis eftir að hann hafi hætt öllum formlegum afskiptum af málum sem snúa að embætti sérstaks saksóknara. „Ég hef verið að berjast fyrir því að byggja upp ákæruvaldið í landinu en það hefur skort til þess peninga,“ segir Valtýr. Hann segir að það séu vandamál alls staðar og það verði að hafa í huga að verkefni ákæruvaldsins í landinu snúi ekki bara að bankamálum. Valtýr sagði að kröfur Evu Joly væru óljósar og hann sæi ekki tilganginn í því að verða við þeim.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert