Segir sig úr stjórn LÍN

Lánasjóður íslenskra námsmanna er til húsa í Höfðaborg.
Lánasjóður íslenskra námsmanna er til húsa í Höfðaborg. mbl.is/Golli

Stjórnarmaður og fulltrúi SÍNE í Lánasjóði íslenskra námsmanna hefur sagt af sér til að mótmæla fjársvelti stofnunarinnar og undirstrika alvarleika þeirrar stöðu sem íslenskir námsmenn standa nú frammi fyrir.

Ásgeir Ingvarsson hefur sent félagsmönnum SÍNE bréf þar sem hann hvetur félagsmenn til að skrifa skrifstofu SÍNE, sem og skrifa menntamálaráðherra og meðlimum menntamálanefndar Alþingis, til að skýra þeim frá kjörum sínum og þeim áhrifum sem ófullnægjandi lán hafa á námið.

„Upphæðir lána voru lágar fyrir, og á mörkum þess að telja mætti sjóðinn uppfylla lögbundið hlutverk sitt. Vegna verðbólgu og hruns gengis íslensku krónunnar þýða hinar nýju reglur í raun að kaupmáttur framfærslulána námsmanna jafnt innanlands sem utan skerðist verulega, jafnvel um þriðjung frá síðasta vetri. Þá eru uppi áætlanir um enn frekari niðurskurð á útlánum sjóðsins að ári liðnu.

Þessi niðurstaða er afleiðing þess að hið opinbera hefur ákveðið að veita til lánasjóðsins sama fjármagni í krónum talið og síðasta vetur, og að auki gert sjóðnum að innleiða harkalegar sparnaðaraðgerðir.

Er það mitt mat að sjóðurinn búi nú við slíkt fjársvelti að honum sé ómögulegt að sinna lögbundnu hlutverki sínu, en í lögum frá Alþingi 1992 er sjóðnum falið að tryggja námsmönnum tækifæri til náms án tillits til fjárhags, og jafnframt að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur,“ segir m.s. í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert