Ljóst er að engin niðurstaða fæst í dag í viðræðum viðsemjenda á vinnumarkaði og stjórnvalda um stöðugleikasáttmála. Fram kom á Alþingi í gær að gert er ráð fyrir að bandorms-frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum komi fram upp úr helginni og áætlun um víðtækar aðgerðir til næstu þriggja ára verði tilbúin í kringum 20. júní.
Á fjölmennum formannafundi ASÍ í gær var samninganefnd ASÍ veitt umboð til að halda viðræðum áfram. Var jafnframt lögð áhersla á að verja gildandi kjarasamninga sem felur í sér að standa beri við að laun hækki 1. júlí. Forseti ASÍ segist vona að lögð verði mikil vinna í viðræðurnar í Karphúsinu yfir helgina og alla næstu viku.
Ríkisfjármálin eru eitt af stærstu viðfangsefnunum. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í fréttabréfi samtakanna að ekki hafi enn verið tekin pólitísk ákvörðun um hlutföll skatttekna og niðurskurðar í blandaðri leið til aukins aðhalds í ríkisfjármálum. Óraunhæft sé að ganga út frá því að helmingur aðhaldsins náist með auknum skatttekjum.