Valtýr vill ráða Evu Joly

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, segir að krafa um að hann víki úr embætti sem ríkissaksóknari verði að vera í lögfræðilegum búningi.  Hann hafi ekki heyrt neina rökstudda kröfu um slíkt. Hann hafi sjálfur talið eðlilegt og kosið að víkja í öllum málum sem varða bankahrunið. Þau séu þó aðeins brot af því sem embættið fær til meðferðar.

Eva Joly telur ekki nægilegt að Valtýr víki sæti í málum sem varða bankahrunið heldur þurfi hann að víkja alveg úr embætti. Jóhanna Sigurðardóttir sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun um hæfi Valtýs Sigurðssonar, að það mætti ekki vera neinn efi hvað þetta mál varðar.

Valtýr segist virða þessi sjónarmið og eflaust sé öllum mikið í mun að tryggja sjálfstæði sérstaks saksóknara Hann segist þó telja að það sé tryggt með því að hann sjálfur víki í þessum málaflokki. Ef vanhæfi hans telst víðtækara en svo verði að klæða það í annan búning. Eva Joly sé eflaust mikil dugnaðarmanneskja en hún verði að passa sig á því að gera ekki rannsókninni erfitt fyrir með óheppilegum og skilyrtum yfirlýsingum.

Aðspurður segist hann ekki ætla að taka af skarið í þessu máli. Hann hafi sjálfur skrifað forsætisráðherra og lýst áhyggjum sínum af embætti ríkissaksóknara og því að það geti staðið undir nafni. Það sé ekki bara í bankamálum sem þurfi að taka til hendinni. Það sé ágætt ef Eva Joly afli fjár fyrir ákæruvaldið. Kannski hann ætti að fá hana til ríkissaksóknaraembættisins til þess að hjálpa til við að skaffa fé.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert