„Velviljaður áhugi“ Þjóðverja á íslenska efnahagshruninu

Halldór Guðmundsson.
Halldór Guðmundsson. mbl.is/Dagur

Ný bók þeirra Halldórs Guðmundssonar og Dags Gunnarssonar um bankahrunið og kreppuna á Íslandi hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi, en bókin var gefin út þar í landi í vikunni. Bókin heitir Wir sind alle Isländer (Öll erum við Íslendingar) og í kvöld mun þýska sjónvarpsstöðin ZDF sýna þátt í  þar sem fjallað er um bókina og íslensku kreppuna.

„Þetta er voða gaman,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is í dag. Hann sagði að Þjóðverjum finnist spennandi að velta því fyrir hvort þeir geti lært eitthvað af Íslendingum.

Héldu að hægt væri að gera grín að Íslendingum

Halldór bendir á að kreppan hafi dunið á Íslendingum af svo miklum hraða. „Menn héldu að þeir gætu gert grín að okkur. Svo eru sömu hlutir að gera vart við sig hjá þeim. Núna þurfa þýskir skattgreiðendur að bjarga hverju fyrirtækinu á fætur öðru,“ segir Halldór og bætir við að Íslendingar hafi upplifað áfallið á undan Þjóðverjum.

Þá segir hann Þjóðverja hafa áhuga á sögum Íslendingana sem rætt er við í bókinni, venjulegs fólks sem segir frá sinni reynslu.

Bók fyrir Þjóðverja

Aðspurður segir Halldór að bókin hafi verið skrifuð fyrir Þjóðverja. „Þeir báðu um hana, m.a. út af allri þessari umfjöllun. Þannig að hún er skrifuð á þýsku handa þeim.“

Halldór var nýverið í Þýskalandi til að kynna bókina og hann segir að áhuginn sé mikill. „Ég myndi kalla áhuga Þjóðverja velviljaðan áhuga,“ segir hann. 

Sem fyrr segir er fjallað um bókina og bankahrunið á Íslandi á vef ZDF auk þess sem þýska blaðið Spiegel hefur birt jákvæða umsögn.

Í bókinni er þýskum lesendum sagt frá aðdraganda fjármálahrunsins á Íslandi, viðbrögðum stjórnvalda og almennings og það svo sett í samhengi við íslenska sögu og alþjóðlegan vanda. Þar eru jafnframt svipmyndir af tíu Íslendingum sem fjalla um kreppuna eins og hún blasir við þeim.

Dagur Gunnarsson tók portrettmyndir af viðmælendunum og Halldór Baldursson gerði teikningar.

Umfjöllun á vef ZDF.

Bókin kom út í Þýskalandi í vikunni.
Bókin kom út í Þýskalandi í vikunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert