Neytendastofa hyggst hafa samband við skipuleggjendur Airwaves-tónlistarhátíðarinnar vegna fyrirætlunar þeirra um að tilgreina miðaverð á hátíðina í evrum, skv. upplýsingum frá stofnuninni. Ástæðan er sú að samkvæmt reglugerð um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar, er skylt að verðmerkja vöru og þjónustu með endanlegu söluverði í íslenskum krónum.
Fram kom í Morgunblaðinu í gær að miðinn kostar 85 evrur, þ.e. 15.300 krónur. Fyrstu tvær vikurnar eftir að miðasala hefst kostar miðinn reyndar 8.900 krónur.
Evruverðmerking ætti líklega ekki að skapa erfiðleika í fjarsölu, s.s. á netinu, þar sem verð í krónum getur væntanlega sveiflast með gengi krónunnar. Öðru máli gegnir um miða með hefðbundnum verðmerkingum.