„Jarðýtan fór alveg á kaf, hún hvarf. Bara bláhúsið stóð upp úr,“ segir Jóhannes Brynleifsson um aðkomuna að jarðýtu sem grófst undir malarskriðu í námu við Þrengslaveg á föstudagsmorgun. Fyrir snarræði Jóhannesar, sem er námustjóri hjá Björgun, og vinnufélaga hans tókst að forða ökumanni ýtunnar frá bana. Mölin fyllti nánast stýrishúsið og þrengdi svo að manninum að honum lá við köfnun.
Fjallað er um málið í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.
Jóhannes og samstarfsmaður hans sáu skriðuna skella á ýtunni og hlupu strax til hjálpar. Vegna malarinnar var ekki hægt að opna stýrishúsið en Jóhannes segir aðeins höfuð ökumannsins hafa staðið upp úr mölinni í húsinu. Greip Jóhannes þá grjóthnullung og braut gat í herta öryggisrúðu stýrishússins og reif hana úr falsinu. „Ég veit ekkert hvernig ég fór að þessu, þetta bara gerðist,“ segir Jóhannes en að þessu loknu tóku mennirnir tveir til við að grafa ökumanninn út.
Hann var að sögn Jóhannesar orðinn „ansi fölur“ þegar þeir höfðu grafið nóg frá honum svo hann gæti dregið andann. Þegar svo var komið var Neyðarlínunni gert viðvart og kom lögregla og sjúkralið á staðinn örfáum mínútum síðar.