„Við erum auðvitað að reyna hvað við getum til þess að koma þeim til aðstoðar sem þurfa á því að halda,“ segir Jónas Pétursson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, um vandamál stofnfjáreigenda sem tóku lán fyrir stofnfjáraukningu á árinu 2007.
Greint var frá því í DV í gær að yfir 90 prósent af tæplega 150 stofnfjáreigendum í sjóðnum hefðu tekið lán fyrir stofnfjáraukningu sem samtals nam um 500 milljónum. Flestir tóku erlend lán, að sögn Jónasar. „Fólki var auðvitað frjálst að taka lán hvar sem er en mest var þó tekið hjá Saga Capital fjárfestingarbanka. Þessi stofnfjáraukning er verulega íþyngjandi fyrir marga núna það gefur augaleið. Hrun gjaldmiðilsins hefur sérstaklega verið íþyngjandi fyrir þá sem eru með lán í erlendri mynt, sem var stór hluti þeirra sem tóku lán fyrir aukningunni,“ segir Jónas.
Sveinn Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar sparisjóðsins og stofnfjáreigandi, segir þá hugmynd að auka stofnféð eins og mikið og gert var, hafa verið óskiljanlega.
Sjóðurinn er nú með eigið fé upp á 33 milljónir króna en bíður þess að fá 467 milljónir frá ríkinu svo eiginfjárhlutfall sé yfir löglegum mörkum, þ.e. yfir átta prósent.
Samkvæmt upplýsingum frá Brynhildi Ólafsdóttur, upplýsingafulltrúa Saga Capital, eru lánin sem bankinn veitti hvorki í vanskilum né á gjalddaga. Hins vegar geti bankinn ekki tjáð sig um stöðu lána til viðskiptavina vegna stofnfjáraukningarinnar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.