Sigmundur: Fjarar undan stjórninni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn var í Reykjanesbæ í dag að sér sýnist á öllu að farið sé að fjara undan ríkisstjórninni. Sagðist hann verða var við aukna óþreyju fólks vegna þess að stjórninni hafi ekki tekist að klára þau mál sem hún hafi ætlað sér.

Henni hafi enn ekki tekist að koma saman aðgerðaráætlun varðandi ríkisfjármálin og viðbrögð hennar við Icesave málinu hafi greinilega valdið fólki vonbrigðum.

Sigmundur sagði ríkisstjórnina enn gera of lítið úr vanda heimila og fyrirtækja í landinu og lagði áherslu á mikilvægi þess að ríkið geti staðið undir nauðsynlegri innspýtingu inn í atvinnulífið. Mikilvægi þess megi sjá á viðbrögðum annarra þjóða við efnahagskreppunni. 

Þá sagði hann að einmitt þess vegna sé svo mikilvægt að íslenska ríkið skuldsetji sig ekki um of vegna Icesave. „Gerum við það verðum við hvorki samkeppnishæf varðandi fjármagn né vinnuafl," sagði hann. „Slíkt getur leitt til þess að Ísland missi efnahagslegt sjálfstæði sitt og þá eru náttúruauðlindirnar í húfi."

Sigmundur varaði einnig við því að ríkisstjórnin væri of værukær og bjartsýn á að hægt verði að semja á ný síðar, komi í ljós að þjóðarbúið geti staðið undir skuldbindingum sínum. Slíkir samningar geti einungis leitt til lengingar á greiðslutíma þar sem skuldir, sem ríki hafi á annað borð tekið á sig, séu aldrei felldar niður.

Hann varaði einnig við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sagði sjóðinn aldrei hafa náð þeim árangri sem stefnt hafi verið að, frá því niðurskurðarstefna var tekin upp innan hans.

Þá sagði hann að komi í ljós að sjóðurinn hafi beitt sér í Icesave-málinu muni það verða sönnum þess að sjóðurinn standi fyrst og fremst vörð um hagsmuni fjármagnseigenda.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert