Fréttaskýring: Greið leið gegnum vandann en dýrkeypt

Eru erfiðleikarnir svo miklir að rétt sé að skattleggja iðgjöldin …
Eru erfiðleikarnir svo miklir að rétt sé að skattleggja iðgjöldin til að rétta við halla ríkisins? Skatttekna verður líka þörf í framtíðinni.

Ekki fer á milli mála að tillaga sjálfstæðismanna um að skattleggja iðgjöld í lífeyrissjóði í stað skatts á útgreiðslurnar eins og nú er, valdi nokkrum titringi. Hugmyndin hefur þó fengið jákvæðar undirtektir meðal stjórnarliða og skv. upplýsingum blaðsins verið skoðuð og rædd meðal viðsemjenda á vinnumarkaði, bæði í Samtökum atvinnulífsins og innan verkalýðshreyfingarinnar, m.a. á formannafundi aðildarfélaga ASÍ í fyrradag.

Eins og við mátti búast hefur hugmyndin mætt andstöðu forsvarsmanna launþegasamtaka og atvinnurekenda sem fara með málefni lífeyrissjóðanna. Þeir telja að breytingin myndi valda alvarlegri röskun á lífeyrissjóðakerfinu. Eftir sem áður taka menn vel í að skoða hana. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir sjálfsagt að meta hana og sjá hvort hún geti verið innlegg í umræðurnar.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur í stuttu máli út á að skattleggja inngreiðslur í sjóðina í stað útgreiðslnanna. Þetta gæti aflað mikilla tekna í núverandi efnahagskreppu, ná mætti niður risastórum halla ríkissjóðs, greiða niður erlendar skuldir og komast hjá sársaukafullum niðurskurði og skattahækkunum. Áætlað er að afla mætti ríkissjóði allt að 40 milljarða viðbótartekjum árlega án þess að skerða ráðstöfunartekjur launþega og eftirlaunaþega. Breytingin yrði ekki afturvirk og leggja sjálfstæðismenn til að hún verði útfærð þannig að sjóðirnir stofni tvær deildir. Í annarri yrðu inngreiðslur skattlagðar en í hinni útgreiðslurnar. Gömlu deildinni yrði lokað við breytinguna og hún tæki ekki við frekari inngreiðslum.

Þetta er vel framkvæmanlegt segja sjálfstæðismenn sem rætt er við og réttlætanlegt vegna þess gríðarstóra vanda sem við er að fást.

Á vinnumarkaði sjá menn hins vegar mikla ókosti.

Gylfi segir hugmyndina að taka framtíðartekjur ríkisins af lífeyrisgreiðslunum og skattleggja þær núna geta haft mikil áhrif á framtíðartekjur ríkisins þegar stærsta kynslóð Íslandssögunnar fer á eftirlaun. Gylfi minnir á að lífeyrissjóðakerfið er sjálfbært. Það veiti ekki eingöngu afkomutryggingu með lífeyrisgreiðslunum, heldur sé þörfum kynslóðanna fyrir þjónustu mætt með skatttekjum af lífeyrisgreiðslunum. Þeir sem ungir eru í dag þyrftu þá í framtíðinni að taka á sig meiri skattbyrði til að standa undir þjónustu við þá kynslóð sem komin verður á eftirlaun.

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri SA, segir að þessi breyting myndi gjörbreyta forsendum lífeyriskerfisins.

Bendir hann m.a. á að meðferðin á persónuafslætti yrði flókin. Réttindauppsöfnunin yrði hægari þar sem viðkomandi myndu ekki njóta vaxtatekna af þeim hluta iðgjaldsins sem færi í skatta. „Það þýðir þá væntanlega minni lífeyri, meiri greiðslur úr Tryggingastofnun í framtíðinni og minni skatttekjur af lífeyri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka