Miðstjórn Framsóknar: Þingmenn styðji ekki Icesave samninginn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, sem haldinn var í dag, skorar á þingmenn flokksins að greiða ekki atkvæði með samningi um uppgjör vegna ICESAVE skuldbindinga Landsbankans, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Ályktun sem miðstjórnin samþykkti er svohljóðandi:

„Fyrirliggjandi samningur, eins og hann hefur verið kynntur fyrir
almenningi og þingmönnum, virðist ekki ásættanleg samningsniðurstaða
þar sem enn hafa engin gögn verið lögð fram sem réttlæta það að
Alþingi samþykki þær gífurlegu skuldbindingar sem í samningnum
felast.

Miðstjórnin telur að liggja þurfi fyrir hlutlaust mat á eignasafni
Landsbankans, mat á áhrifum samningsins á lánshæfismat Íslands,
áhrif á þróun gengis íslensku krónunnar, áhrif gengis breska
pundsins og evrunnar á greiðslubyrðina, möguleikar þjóðarinnar á
að geta staðið við þær greiðslur sem í samningnum felast og hvaða
áhrif sú greiðslubyrði myndi hafa á lífskjör á Íslandi.

Miðstjórnin telur mikilvægt að skoða lagalega stöðu Íslands, meðal
annars með sérstöku tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um gildi
neyðarlaganna. Þegar þessari óvissu er eytt er fyrst hægt að ætlast
til þess af þingmönnum að þeir taki afstöðu til samningsins.

Miðstjórnin telur að til greina komi að ríkisábyrgð vegna Icesave
skuldbindinganna verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við aðstæður sem þessar kristallast nauðsyn þess að eignarhald
þjóðarinnar á auðlindum sínum sé tryggt. Það verður einungis gert
með stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum
sínum.

Miðstjórnin telur mikilvægt að fylgt sé markvissri og skýrri stefnu
um það hvernig þjóðin á að geta unnið sig út úr vandanum og
undirstöður samfélagsins tryggðar til lengri og skemmri tíma. Verður
að huga sérstaklega að gjaldeyrisskapandi og gjaldeyrissparandi
fyrirtækjum og hafnar miðstjórn leið aðgerðarleysis
ríkisstjórnarinnar sem er að keyra fyrirtækin og heimilin í þrot.
Samvinna og samstaða þjóðarinnar er forsenda þess að vel takist til,
en þá þarf að upplýsa á trúverðugan hátt um hina raunverulegu
stöðu mála og hvaða valkostir eru raunverulega í boði. Dulkóðanir
og baktjaldamakk eiga að heyra sögunni til.

Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar að þegar í febrúarmánuði
lagði Framsóknarflokkurinn fram tillögur í efnahagsmálum, m.a. um
leiðréttingu á höfuðstól skulda heimila og fyrirtækja um 20%. Telur
miðstjórn enn mikilvægara nú en þá að þegar verði gripið til
róttækra aðgerða í efnahagsmálum sem m.a. miða að því að bjarga
heimilum og fyrirtækjum landsins sem ekki hefur verið tekið tillit til.
Á þann hátt getur þjóðin unnið sig út úr vandanum.

Miðstjórnin áréttar nauðsyn þess að uppgjöri bankanna sé lokið
sem fyrst svo bankakerfið geti tekið til starfa á ný.

Miðstjórn Framsóknarflokksins styður öll góð mál, sem til heilla
geta horft fyrir land og þjóð og skorar á þingmenn flokksins að
leggja öllum góðum málum lið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka