Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld að hann eigi ekki von á að niðurstaða liggi fyrir um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 2009 fyrr en undir lok næstu viku.
Fram kom í fréttum Sjónvarps að aðgerðir til þriggja ára væru nú til umræðu og að á meðal þeirra væri hugmynd um að leggja 8% aukaskatt á mánaðartekjur yfir 700.000 krónum.
Til stóð að fjármálaráðherra legði fram frumvarp (svokallaðan bandorm) um fyrstu aðgerðir á Alþingi eftir helgi. Þá stóð að áætlun um aðgerðir til lengri tíma yrði svo lögð fram í kringum 20. júní. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra staðfesti hins vegar við fréttmenn í dag að ákveðið hefði verið að flétta þetta betur saman.
Ríkisstjórnin átti tvo fundi í dag en á milli þeirra funduðu forsvarsmenn stjórnarflokkanna með þeim aðilum atvinnulífsins sem eiga aðild að viðræðum um svonefndan stöðugleikasáttmála.