Seldu skip og veiðiheimildir í nýtt félag

Séð yfir Grundarfjörð.
Séð yfir Grundarfjörð. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Soffanías Cecilsson hf. í Grundarfirði hefur stofnað nýtt félag, SC hf. og selt yfir í það félag fiskiskip, fiskvinnslu og veiðiheimildir félagsins, sem eru veðsettar í botn í Landsbankanum, eins og fram kom í greininni Óbærilegar skuldir  í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum.

Þetta hafa þeir Sigurður Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Soffaníasar Cecilssonar hf. og Rúnar Sigtryggur Magnússon, stjórnarformaður félagsins ásamt eiginkonum sínum, þeim Sóleyju og Kristínu Soffaníasdætrum og móður þeirra Huldu Vilmundardóttur, ákveðið að gera, en þau ráða yfir tæplega 70% hlut í hinu skuldsetta félagi Soffanías Cecilsson hf. Magnús Soffaníasson ræður yfir 30,14% og er í minnihluta í félaginu. Hann er ekki skráður sem hluthafi í hinu nýja félagi og því hefur hann glatað 30,14% eignarhlut sínum í útgerð og fiskvinnslufyrirtækinu Soffanías Cecilsson hf. ef hinir þinglýstu kaupsamningar á milli Soffaníasar Cecilssonar hf. og SC hf. verða látnir standa óhaggaðir.

Ítarlega er fjallað um málið í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. 

Í greininni um óbærilegar skuldir Soffaníasar Cecilssonar hf. fyrir tveimur vikum kom fram að skuldir félagsins eru í kringum 10 milljarðar króna, en skuldirnar sem liðlega tveir þriðju eigenda gamla félagsins hyggjast flytja með skipum, fasteignum og veiðiheimildum, yfir í hið nýja félag eru liðlega 2,6 milljarðar króna. Gróft reiknað hafa eigendurnir þannig í hyggju að skilja eftir í gamla félaginu um 7,5 milljarða króna skuldir.

Heimildir Morgunblaðsins herma að sennilega muni Magnús Soffaníasson fara dómstólaleiðina til þess að fá skorið úr því hvort salan til SC hf. sé lögmætur gjörningur. Þó er ekki víst að til þess komi, þar sem Landsbankinn getur gjaldfellt skuldir Soffaníasar Cecilssonar hf. og leyst til sín eignir félagsins.

Samkvæmt heimildum úr Landsbankanum stendur fyrir dyrum sérstök rannsókn á málefnum Soffaníasar Cecilssonar hf. og SC hf. á vegum bankans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert