Verða dómstólar reiðubúnir?

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/Sverrir

Rannsókn á bankahruninu er komin á fullt skrið hjá embætti sérstaks saksóknara og til stendur að fjölga starfsfólki við embættið umtalsvert eins og ráðgjafinn Eva Joly hefur gert kröfu um. Sú spurning hefur vaknað hvernig dómskerfið í landinu er í stakk búið til að taka á þessum málum þegar þar að kemur.

Símon Sigvaldason héraðsdómari og formaður dómstólaráðs segir að þetta mál hafi vissulega verið mikið rætt innan dómstólakerfisins að undanförnu. Það sé mjög mikilvægt að dómstólarnir séu í stakk búnir til að taka við þessum málum. Dómstólaráð hefur átt fundi með dómsmálaráðuneytinu um stöðuna og segir Símon að ráðuneytið hafi fullan vilja til að gera ráðstafanir svo þessi mál geti fengið hnökralausa meðferð. Hann segir að samkvæmt fréttum sé rannsókn hafin á mörgum málum og væntanlega muni fleiri mál bætast við. Á þessari stundu viti auðvitað enginn hve mörg af þessum málum muni leiða til ákæru.

Tekur einhvern tíma að fjölga dómurum

Hann segir að meðferð málanna verði að vera samofin heild. „Það dugar ekki að vera með mikla og vandaða rannsókn ef málin koðna síðan niður fyrir dómstólunum vegna mannfæðar,“ segir hann. Símon bendir á að þau félög sem eru til rannsóknar séu flest staðsett á suðvesturhorninu og því megi búast við því að mesta álagið verði á Héraðsdóm Reykjavíkur og Héraðsdóm Reykjaness. „Þarna þurfa menn að vera tilbúnir þegar þar að kemur,“ segir Símon.

Reikna má með því, miðað við fréttir af rannsóknum mála, að mörg þeirra kunni að verða mjög umfangsmikil. Þá má telja líklegt að í flestum þeirra verði dómar fjölskipaðir. Símon bendir á að eitt slíkt mál útheimti starfskrafta eins dómara svo mánuðum skiptir.

„Svo geta auðvitað komið upp álitamál um vanhæfi eins og hefur sýnt sig í umræðunni undanfarna daga,“ segir Símon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert