„Þetta var gagnlegur vinnufundur en málið er ekki í höfn. Það verður fundað stíft næstu daga en ég tel að við höfum ekki tíma nema til 17. júní eða þar um bil til þess að fá að sjá heildarmyndina af áherslum ríkisstjórnarinnar næstu árin,“ sagði Gylfi Arbjörnsson forseti ASÍ við Fréttavef Morgunblaðsins eftir að hann kom af fundi með ríkisstjórninni.
„Við höfum lagt áherslu á að fá að sjá heildarmyndina fyrir þetta ár en líka 2010, 2011 og 2012. Það skiptir miklu máli að fá að vita hvernig byrðunum verður dreift á milli ára,“ sagði Gylfi.
Ríkisstjórnin hefur setið á fundi í morgun og fundar áfram í dag.
Þegar Gylfi var spurður hvort hann væri bjartsýnni en áður, eftir fundinn með ríkisstjórninni í dag, sagði hann ekki rétt að tala um bjartsýni. „Við erum að höndla hér með hryllilegar staðreyndir sem þjóðin stendur frammi fyrir. Við höfum ýtt á að samhliða því sem ríkisfjármálin eru skoðuð verði þau rædd í samhengi við vaxtamál og peningamál. Ef ekki verða fundnar leiðir til þess að lækka vexti umtalsvert og laga gengi krónunnar um leið hugsa ég með skelfingu til næsta vetrar. Það er ríkisstjórnarinnar að finna lausn; við ræðum við hana um rammann en ríkisstjórnin ber ábyrgðina.“
Gylfi sagði samtök vinnumarkaðarins funda á mánudag með einstaka ráðherrum - til þess að fá upplýsingar um hugmyndir að aðgerðum í einstaka málaflokkum - og síðar þann dag eða þriðjudag með forystumönnum ríkisstjórnarinnar á ný.