Forsætisráðherrar Norðurlandanna sitja nú á fundi á Hótel Héraði á Egilsstöðum og er gert ráð fyrir að fundurinn standi fram eftir kvöldi. Ráðherrarnir munu einnig hittast í fyrramálið og halda blaðamannafund og fara í stutta skoðunarferð um Fljótsdalshérað áður en þeir halda heim.
Fram kemur á fréttavefnum Austurglugganum, að ráðherrarnir komu, ásamt fylgdarsveit, hver í sinni í einkaflugvél til Egilsstaðaflugvallar. Sá fyrsti lenti klukkan þrjú og síðan lentu vélarnar hver af annarri næstu fjörutíu mínúturnar. Ráðherrarnir gista á Gistihúsinu Egilsstöðum en funda í kjallara Hótel Héraðs.
Hverjum ráðherra fylgir um 3-5 manna fylgdarlið þannig að alls sitja um þrjátíu manns á fundinum. Við bætast síðan öryggisverðir og íslenskir og erlendir fréttamenn, en áætlað er að yfir fimmtíu manns komi í allt að fundinum.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, situr ráðherrafundinn fyrir hönd Íslands. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi framkvæmdatjóri norrænu ráðherranefndarinnar, situr fundinn einnig.
Þetta er í annað skipti sem norrænu forsætisráðherrarnir hittast á Íslandi á þessu ári. Þeir áttu einnig fund í Bláa lóninu í febrúar þegar þar fór fram ráðstefna um umhverfismál á vegum Norðurlandaráðs. Ein breyting hefur orðið frá þeim fundi en Lars Løkke Rasmussen er tekinn við sem forsætisráðherra Danmerkur af Anders Fogh Ramsussen.