Skútan, sem steytti á skeri innst í Breiðafirði í morgun, er komin til hafnar í Stykkishólmi. Átta manns voru um borð í skútunni, sem heitir Renus, en engum varð meint af. Vegna vélarbilunar var skútan stjórnlaus í miklum straumi og steytti þess vegna á skerinu.
Skútan var á leið inn í Búðardal en í svokallaðri Röst lenti hún í miklum straumi. Lítill gúmbátur var fyrstur á vettvang og dró Renus af skerinu og það var svo skemmtibáturinn Axel Sveinsson sem dró skútuna til hafnar í Stykkishólmi. Axel var þar við bryggju þegar beðið var um aðstoð og það tók um 25 mínútur að sigla að skútunni.
Kafarar eru að hefja skoðun á skútunni en ekki eru neinar skemmdir sjáanlegar.
Veður var gott á vettvangi.