„Eftir því sem stórþjóðir taka meira akuryrkjuland á leigu þrengir meir að Evrópumörkuðum. Samkeppni um nothæft land og vatn mun fara vaxandi. Það þýðir að staða Íslands á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega á nærmörkuðum, er líkleg til að batna. Vatnið og landrýmið vinnur með okkur,“ segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, um þá möguleika sem felast í þróuninni fyrir íslenskan landbúnað.
„Vatnsauðlind Íslendinga er gífurleg. Við getum flutt út mikið af vatni í formi matvæla, ekki síst þegar það fer að hlýna meira. Við erum með hlutfallslega mikið af ræktanlegu landi á Íslandi þótt það sé ekki allt í notkun í dag. Eftir því sem akuryrkjan styrkist og fóðurverð erlendis hækkar þá styrkist framleiðsla á öllum tegundum kjöts hér á landi miðað við alþjóðlega markaði. Ég lít svo á að takmarkaðir útflutningsmöguleikar á íslenskum landbúnaðarafurðum sé tímabundið vandamál.“
– Heimurinn er stór. Er ekki ósennilegt að Ísland komist í þessa stöðu, meðal annars í ljósi fjarlægðar frá mörkuðum?
„Nei, því í mörgum löndum, til dæmis Bretlandi, þá takmarkast svigrúmið til landbúnaðarframleiðslu meðal annars af vatnsmagninu. Bretar eru að flytja inn ævintýralegt magn af vatni í formi innfluttra matvæla frá Afríku og öðrum heimshlutum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.