Þjóðleikhúsinu ekki lokað í tvö ár

Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsið mbl.is/Golli

Ekki stendur til að loka Þjóðleikhúsinu í tvö ár, að sögn Tinnu Gunnlaugsdóttur, Þjóðleikhússtjóra, sem segir að leikhúsbyggingin hafi ekki verið í betra ásigkomulagi í áratugi. 

Tinna hefur sent mbl.is eftirfarandi yfirlýsingu vegna fréttar, sem birtist í Fréttablaðinu í gær:

Þjóðleikhúsið aldrei í betra ásigkomulagi.

Þjóðleikhúsið hefur ekki verið í betra ásigkomulagi í áratugi, eftir stórfelldar og viðamiklar endurbætur á undangengnum árum.

Í tilefni af frétt um Þjóðleikhúsið á forsíðu Fréttablaðsins, laugardaginn 13. júní, er rétt að koma því á framæri að uppsláttur blaðsins er með öllu tilefnislaus. Það þarf ekki að loka þjóðleikhúsinu í tvö leikár. Rökstuðningur blaðsins byggir á sérfræði skýrslu sem unnin var fyrir Þjóðleikhúsið að frumkvæði Þjóðleikhússtjóra árin 2005-2006. Skýrslan lýsir ástandi hússins eins og það var árið 2005. Frétt Fréttablaðsins er því fjögurra ára gömul! 

Skyndilegur áhugi Fréttablaðsins á skýrslunni á þessum tímapunkti vekur spurningar, nú þegar Þjóðleikhúsbyggingin skartar nú sínu fegursta. Eins er framsetning fréttarinnar og fyrirsögn meira en lítið villandi. Hið rétta er að Þjóðleikhúsið hefur ekki verið í betra ásigkomulagi í áratugi, eftir gagngerar og viðamiklar endurbætur á undangengnum þremur árum, eins og varla hefur farið framhjá vegfarendum Hverfisgötu. Þær aðgerðir náðu til viðgerða á steypuskemmdum í burðarvirki útveggja og endurnýjunar á múrklæðningu/steiningu, endurnýjunar og viðgerða á þaki og endurnýjunar á öllum gluggum og flestum útihurðum. Viðgerðirnar náðu einnig til aðgengismála, en fjórar lyftur fyrir hreyfihamlaða hafa verið settar upp í aðalbyggingunni á þessum tíma, salerni fyrir hreyfihamlaða hefur verið sett upp á fyrstu hæð á gestasvæði, auk þess sem unnið hefur verið að endurbótum á eldvörnum og öryggismálum.

Fasteignir ríkissjóðs tóku við viðhaldi og rekstri leikhúsbyggingarinnar 1. maí 2006 og hefur sú stofnun tekið viðhaldsmál Þjóðleikhússins föstum tökum og meðal annars látið gera fimm ára áætlun um viðhaldsverkefni innan húss. Þau verkefni snúa fyrst og fremst að öryggismálum og brunavörnum en einnig aðstöðu starfsmanna. Yfirstjórn leikhússins fundar mánaðarlega með fulltrúa frá stofnuninni, þar sem staða verkefna er tekin og áætlanir uppfærðar. Þess ber að geta að verkfræðistofa VSI hefur tekið að sér áætlanagerð vegna brunavarna og er þeirri áætlanagerð fylgt eftir. Það er óhætt að staðhæfa að ástand brunavarnarmála í byggingunni hefur aldrei í sögu þess verið betra.

Öryggismálin á sviðinu eru í stöðugri skoðun, en tæknibúnaður á sviði er vissulega gamall og sumt hefði þurft að endurnýja fyrir margt löngu.  Það er rétt að brýnt er að huga að gagngerri endurnýjun á því svæði, það er vitað og viðurkennt. Tæknistjóri hússins er hinsvegar í stöðugu og reglulegu sambandi við vinnueftirlitið og eldvarnareftirlitið og  unnið er jafnan að lagfæringum á því brýnasta. Sá búnaður sem er notaður er í lagi, til þess  sér fagfólk hússins.

Af endurbótum sem unnið hefur verið að innan húss á undanförnu og snúa að öryggi og aðstöðu, má geta þess að allar sviðsrár voru endurnýjaðar í fyrra. Smíðaverkstæðið Þjóðleikhússins, sem nýtt hefur verið sem leiksvið um árabil,  hefur nú verið gert að raunverulegu smíðaverkstæði aftur og stórbætir sú ráðstöfun alla aðstöðu til smíðavinnu og leikmunagerðar og eins alla geymsluaðstöðu og þar með vinnuumhverfi tæknimanna. Einnig hefur verið unnið að stórum endurbótaverkefnum innan húss er snúa að hreinlæti og  starfsmannaðstöðu, en eldhús í kjallara hefur verið endurgert frá grunni, mötuneyti starfsmanna hefur verið flutt úr gamla málarasalnum á efstu hæð og niður í fullkomlega endurgert rými í vestursal Leikhúskjallarans. Þar hafa  niðurfelld loft meðal annars verið tekin burt og opnað fyrir dagsbirtu, en fjórir gluggar voru þar faldir í milliloftum.

Málarasalurinn verður í sumar endurgerður sem nánast fullkominn æfingasalur, þar sem koma má fyrir æfingaleikmyndum í réttum hlutföllum, en þá aðstöðu hefur aldrei áður verið hægt að bjóða upp á í Þjóðleikhúsinu. Einnig hefur verið tekið á ýmsum vandamálum sem rekja má til langvarandi rakaskemmda, en hluti niðurfelldra lofta á efstu hæð hefur verið endurgerður, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er rétt að minna á í þessu sambandi, að þegar húsið var byggt voru viðmið og kröfur allt önnur en þau eru í dag.  Húsið var að auki reist á erfiðum tímum, eða í kreppunni miklu og fullgert laust eftir stríð. Öll aðföng voru erfið, en hugviti manna voru ekki settar skorður, ekki þá fremur en nú. Þannig er burðarvirki hringsviðsins til dæmis smíðað úr járnbitum úr gömlu Ölfusárbrúnni.  Vissulega var þetta „redding” á sínum tíma, en þetta burðarvirki hefur aldrei klikkað, þó færa megi fyrir því rök að það þarfnist endurnýjunar og standist ekki gæðakröfur til nútíma leikhúss.

Vangaveltur um að hugsanlega geti komið til tímabundinnar lokunar á Þjóðleikhúsinu þegar ráðist verður í næsta áfanga endurbóta Þjóðleikhússins, eða endurnýjunar á tækni og búnaði baksviðs og viðbyggingar til austurs væru allt annað mál en þær eru ótímabærar. Þjóðleikhúsið er lokað í tvo mánuði á ári yfir sumarið og á þeim tíma má framkvæma ýmislegt án þess að það raski reglulegri starfsemi. Viðbyggingar  má vinna með ýmsum hætti, eins og menn vita og þegar hafa verið settir fram þrír valkostir í stöðunni, en þeir valkostir eru meðal annars settir fram með það að markmiði að ítrustu hagkvæni verði gætt, bæði hvað varðar kostnað og rask á reglulegri starfsemi. Ábending um að huga skuli að mögulegum flutningi á rekstri leikhússins í tímabundið í bráðabirgðahúsnæði til að greiða fyrir uppbyggingarstarfi, eru þar settar fram sem valkostur, en ekki skilyrði.

Viðgerðir síðustu ára voru unnar án þess að til lokunar kæmi, og þó oft hafi verið hávaðasamt í húsinu, meðan múrbrot stóð sem hæst og það hafi vissuleg reynt á taugar starfsfólksins, var sambýli við verktaka að flestu leyti með miklum ágætum.  Það má segja að það hafi verið afrek út af fyrir sig að halda úti svo til fullu starfi allan þennan tíma og það afrek ber að þakka starfsfólki og þolinmæði þess.

Það er undarleg fréttamennska að birta frétt sem þessa á forsíðu útbreiddasta blaðs landsins með fyrirsögn sem felur í sér fullyrðingu, án þess að leita sé álits þeirra sem fara með stjórn stofnunarinnar, eða hafa sinnt viðhaldsmálum og ráðgjafastörfum fyrir hana á undangengnum árum.

Skýrslan sem vísað er til í frétt Fréttablaðsins er sérfræðiskýrsla, en auk úttektar á stöðunni eins og hún var fyrir fjórum árum, er hún að stærstum hluta sýn til framtíðar og sem slík á hún fullan rétt á sér.

Skýrslan var kynnt í menntamálaráðuneytinu á sínum tíma, en var hún var einnig afhent núverandi menntamálaráðherra nýlega, til að minna á og ítreka að Þjóðleikhúsið er barn síns tíma og enn á eftir að uppfæra tækni og aðstöðu baksviðs miðað við nútíma kröfur og gæðastaðla.

Enn á eftir að byggja við Þjóðleikhúsið til austurs, það er brýnt, það varðar vinnuaðstöðu og hagkvæmni í rekstri. Þær forsendur hafa legið fyrir lengi.  Málefnaleg umræða um nauðsyn slíkra aðgerða væri bæði tímabær og vel þegin.

Hitt er víst og satt að Þjóðleikhúsið er fullkomlega starfhæft eins og það er í dag og gott betur en það, það hefur aldrei verið í betra ásigkomulagi.

Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert