Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í dag, að því miður virðist það svo að ekki sé hægt að snúa við þeirri ákvörðun stjórnar gamla Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir stjórnenda bankans á lánum sem þeir fengu til að kaupa hlutabréf í bankanum.
Gylfi var að svara fyrirspurn frá Sigmundi Erni Rúnarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Gylfi sagði, að þrátt fyrir þessa niðurstöðu hljóti að koma til skoðunar að draga þá til ábyrgðar, sem stóðu fyrir þessum gerningi. Þar stæði þó ekki upp á framkvæmdavaldið heldur dómsvaldið.
Hann sagði jafnframt, að læra verði af þessu máli og setja reglur til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki í nýju bankakerfi. Gylfi bætti við, að svo kunni að vera að þeir sem fengu þessar skuldir niðurfelldar verði fyrir einhverri ágjöf vegna skattskyldu en talið er líklegt að niðurfelling skuldanna verði metin þeim til tekna.