Fær ekki bætur vegna líkamsárásar á Gíbraltar

Gíbraltar er breskt sjálfsstjórnarsvæði syðst á Spáni.
Gíbraltar er breskt sjálfsstjórnarsvæði syðst á Spáni.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndaleikstjóra, um að hann fái greiddar bætur vegna líkamsárásar, sem hann varð fyrir árið 2005 á Gíbraltar.

Fram kemur í dómnum, að Hrafn hafi verið á ferð á Gíbraltar ásamt barnsmóður sinni og dóttur. Hann hafi ekið bílaleigubíl yfir hæð þegar hópur af mönnum kom akandi á bifhjólum á móti honum. Þeir hafi ekið á mikilli ferð á báðum akreinum og einn bifhjólamannanna skollið á vinstra frambretti bílsins.

Hrafn sagðist hafa farið út úr bílnum eftir áreksturinn.  Þá hafi einn bifhjólamannanna reynt að hrifsa af honum kvikmyndatökuvél sem hann hélt á. Síðan hafi mennirnir ráðist á hann með höggum og spörkum, skellt honum í jörðina, snúið upp á hægri handlegg hans og náð af honum myndavélinni. Einn hafi kastað myndavélinni fram af grjótvegg og niður í fjöru.

Hrafn sagði að sér hefði tekist að komast undan við illan leik og leitað á sjúkrahús. Þar hafi komið í ljós að hann var brotinn á olnboga, tognaður á öxl og með marbletti víða um líkamann. Sumir árásarmannanna hafi einnig þurft að leita aðstoðar á spítala eftir áreksturinn þar sem Hrafn bar kennsl á þá. Lögreglan hafi mætt og rætt við mennina á sjúkrahúsinu og lýst því yfir, að hún teldi málið upplýst.

Hrafn segir, að síðan hafi komið í ljós að árásarmaðurinn var sonur háttsetts embættismanns á Gíbraltar. Lögregluskýrsla hafi verið tekin af Hrafni eftir að hann gekkst undir aðgerð á spítalanum og á lögreglunni hafi mátt skilja að málið væri upplýst og Hrafni lofað afriti af lögregluskýrslunni sem hann mátti sækja daginn eftir. Þegar Hrafn hugðist sækja skýrsluna voru lögreglumennirnir sagðir ekki við og lögregluskýrslan barst aldrei þrátt fyrir umleitanir.

Undir lok ársins 2005 leitaði Hrafn eftir aðstoð utanríkisráðuneytisins. Eftir bréfaskipti við sendiherra Íslands í London og fund með þáverandi utanríkisráðherra var lögmanni og ræðismanni Íslands í Gíbraltar falið að ganga í málið. Í kjölfarið kom það svar frá lögreglunni á Gíbraltar að lögreglumaðurinn, sem annaðist málið, væri kominn á eftirlaun og málið fyndist ekki.

Við frekari eftirgrennslan ræðismanns hafi þetta þó ekki reynst rétt því umræddur lögreglumaður væri enn í fullu starfi. Þegar ljóst var að ógerlegt væri að fá lögregluskýrsluna afhenta bað utanríkisráðuneytið lögregluna á Íslandi að taka skýrslu af Hrafni og barnsmóður hans hér á landi og voru þær sendar út. 

Málið fékkst loks tekið upp af dómsmálayfirvöldum í Gíbraltar og fór Hrafn til Gíbraltar en þar var málinu loks vísað frá dómi. 

Haft er eftir Hrafni í dómnum, að allur þessi málatilbúnaður hafi orðið honum dýr og tímafrekur. Kvikmyndatökuvél hans, sem var eyðilögð í árásinni, hafi ekki verið bætt og hann hafi ekki fengið líkamstjón sitt bætt enda eigi hann ekki rétt á að fá greiddar bætur frá Gíbraltar samkvæmt þarlendum lögum þar sem brotamaðurinn sé óþekktur. Fyrir liggi að enginn bótasjóður sé á Gíbraltar og breskir bótasjóðir taki ekki til þess svæðis.

Hrafn taldi, að hann ætti rétt á bótum samkvæmt íslenskum lögum um bætur til þolenda afbrota þar sem hann hafi orðið þolandi afbrots erlendis, sem var framið af óþekktum aðila, í landi þar sem hann eigi ekki rétt á bótum af hálfu þarlendra yfirvalda.

Ríkið mótmælti þessu og taldi  m.a. að afbrot á erlendri grundu félli því aðeins undir íslensku lögin, að tjónvaldurinn væri íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi.  Þá breyttu röksemdir um, að margt hafi verið sérstætt í meðferð yfirvalda á Gíbraltar, ekki því að atvikið sjálft eða brotið sem slíkt hafi ekki á neinn hátt hátt verið svo sérstakt, að það félli undir undanþáguákvæði íslensku laganna.

Dómurinn tók undir rök ríkisins og vísaði m.a. til þess, að engar lögregluskýrslur liggi fyrir um tjónsatburðinn frá Gíbraltar og einungis liggi fyrir einhliða lýsingar Hrafns á atburðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert