Fékk samtals 70 milljóna lán

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans mbl.is/Sverrir

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, fékk tvö lán hjá séreignarlífeyrissjóði í vörslu bankans, svonefndum Fjárvörslureikningi 3. Um er að ræða svonefnd kúlulán, sem eru með einum gjalddaga í lok lánstímans, eftir 20 ár. Vextir eru 3,5%. Annað lánið er 40 milljónir króna og hitt 30 milljónir, eða samtals 70 milljónir.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, sem útbjó veðskuldabréfin sem um ræðir, sagði í samtali við blaðamann í gær að lífeyrissjóðurinn, sem Sigurjón fékk lánin hjá, sé einkaeign hans og að heimilt sé að veita lán út á slíkan sjóð samkvæmt lögum. Sagði Sigurður að 40 milljóna króna lánið væri með veði í helmingi Sigurjóns í húseign hans og eiginkonu hans. Hitt lánið er tryggt með veði í annarri húseign Sigurjóns, samkvæmt veðbandsyfirliti frá Fasteignaskrá.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að lífeyrissjóður geti ekki verið í einkaeigu. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá árinu 1997 sé fjallað ítarlega um starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu. Þar komi meðal annars fram að heitið lífeyrissjóður sé lögvarið, og því geti ekki allir notað það. „Þá er ljóst að samkvæmt lögunum getur einstaklingur ekki stofnað lífeyrissjóð.“

Hann segir það engu breyta í þessu sambandi þó að um sé að ræða svonefndan viðbótarlífeyrissparnað. Einungis ákveðnir aðilar hafi heimild til að bjóða upp á viðbótarlífeyrissparnað, en það séu svonefdir vörsluaðilar lífeyrissparnaðar, og um það sé fjallað í lífeyrissjóðalögunum. Þetta séu lífeyrissjóðir, bankar og sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög. Þessir aðilar hafi því heimild til að stunda þá starfsemi að taka við viðbótarlífeyrissjóðsgreiðslum sjóðsfélaga og ávaxta þá fjármuni.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka