Uppboði, sem fór fram í dag á sumarhúsalóðunum í Grímsnes- og Grafningshreppi, er nú lokið. Landsbanki Íslands leysti meirihluta lóðanna til sín, en hann er veðhafi í þeim. Verðið var í kringum milljón á lóð. Tuttugu lóðir fóru til einstaklinga.
„Það var slæðingur lóða sem fóru til einstaklinga,“ sagði Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, en hann sá um uppboðið. Af þeim 66 lóðum sem boðnar voru upp seldust 65 og tuttugu fóru til einstaklinga. Landsbanki Íslands leysti til sín 45 lóðir.
„Við ákváðum að selja ekki eina stóra lóð því ekki lá ljóst fyrir hvar hún væri í skipulaginu,“ sagði Ólafur Helgi í samtali við mbl.is. Raddir heyrðust um það á meðan á uppboðinu stóð að Landsbanki hefði haldið uppi verðinu og um það sagði Ólafur Helgi að legið hefði ljóst fyrir í upphafi að Landsbankinn myndi verja sína hagsmuni.
„Landsbankinn varði sig allt upp í milljón krónur, það er alveg rétt,“ sagði Ólafur Helgi. „Ég hef áður sagt það að reikna mætti með því að kröfuhafinn myndi verja sig. Reynslan af uppboðum er sú og verðið lá á bilinu 900-1.000.000,“ sagði hann.
Uppboðið fór fram að kröfu Grímsnes- og Grafningshrepps vegna vangoldinna fasteignagjalda.