Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þráspurði Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag hver staða mála í samskiptum við Breta verður ef svo fer að ekki reynist meirihlutastuðningur við samkomulagið um Icesave.
Steingrímur svaraði að þingið muni væntanlega fjalla um þessa spurning þegar frumvarp um málið kemur fram. Fram kom hjá honum að búið sé að aflétta frystingu eigna Landsbankans í Bretlandi.
Steingrímur sagði, að ríkisstjórnin hefði haft fullt samningsumboð frá Alþingi að ganga frá þessum samningum og skipað samninganefnd, sem leiddi málið til lykta. Steingrímur sagðist myndu leggja fram frumvarp um málið í ríkisstjórn og óska eftir heimild til að leggja það fram stjórnarfrumvarp í trausti þess að það njóti stuðnings á Alþingi. Eftir það væri málið í höndum Alþingis.
Bjarni sagði, að því hefði ítrekað verið hafnað af hálfu stjórnvalda að svara því hvort gengið hafi verið úr skugga um að samningurinn hefði meirihlutastuðning á þinginu.
Áætlun um gjaldeyristekjur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fjallaði einnig um Icesave-málið í fyrirspurnartíma þingsins og spurði Steingrím J. Sigfússon hvort gerð hafi verið áætlun um hvernig Íslendingar geti skapað nægilegar gjaldeyristekjur á næstu 15 árum til að standa undir Icesave-samkomulaginu.
Sagði Sigmundur Davíð, að þriðja heims ríki hefðu lent í þeirri gildru í olíukreppunni á áttunda áratug síðustu aldar, að taka lán í gjaldeyri sem þau gátu síðan ekki staðið undir og hefði fest þau í fátæktargildru. „Það er ljóst, að það er allt annað fyrir ríki að skuldsetja sig í erlendri mynt en sinni eigin mynt," sagði Sigmundur Davíð.
Steingrímur sagði ljóst, að það verði þröngt um gjaldeyristekjur og aðrar tekjur í þjóðarbúinu ef heimsenda- og svartnættisspár formanns Framsóknarflokksins gengju eftir. Hitt væri ljóst, að það væri eitt mikilvægasta verkefni næstu missera að fá mynd af heildarstöðunni og hvernig íslenskur þjóðarbúskapur réði við þau áföll, sem dunið hefðu yfir. Unnið væri að því að sjá til þess að greiðslubyrði og vaxtabyrði dreifist þannig að það sé viðráðanlegt fyrir þjóðarbúskapinn.
Sagði Steingrímur að hollensk stjórnvöld hefðu m.a. boðið fram aðstoð sína við þetta.